Kynning

Kannski mætti segja um mig eitthvað svipað og sagt var um Ólaf digra, síðar helga, í Gerplu, að ég ólst upp í kjölum báta við frekar harðsnúið orðfæri. Átta ára gamall var ég með dag og dag á grásleppuveiðum með föður mínum, og tólf ára gamall var ég á sumrum á togara upp á hálfan hlut. Fjórtán ára var ég kominn upp á dekk á hlera, og lásaði úr gröndurum við öskrandi mann í glugga. Frá átján ára aldri gerði ég út trillu norður á ströndum á sumrin, þar til ég hafði lokið við magisternám mitt í norrænum fræðum árið 1998. Ég hef fengið að kynnast góðu fólki og góðum sagnamönnum; fólki sem snemma vakti hjá mér áhuga á tilvistarlegum spurningum.

Á hinn bóginn hef ég helgað líf mitt norrænum fræðum, og lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Björgvin árið 2008. Ég er fræðimaður sem leitast við að nota báða hluta heilans, og ekki bara þann sem sér um rökhugsun. Ég er sérfræðingur í dróttkvæðum, og hlýt að jafnaði samúð fyrir það hlutskipti mitt. Ég hef ekki áhuga á dróttkvæðum sem slíkum. Ég hef áhuga á manneskjunni, hugsun hennar og háttum. Og dróttkvæðin eru einu frumheimildirnar sem um það hvernig fólk hugsaði hér í norðrinu áður en grísk-rómverska menningin ruddi sér til rúms í hugum fólks með kristni og kirkju. Ég tel mig búa að fræðagrúski mínu sem rithöfundur, það hjálpar mér að sjá kjarnann í hlutum, að afklæða hvernig fólk man í gegnum sögur og kvæði og hvað þarf að vera í sögu eða kvæði svo það sitji í minni fólks. Nútímahöfundurinn er í samskiptum við sama mannsheilann og dróttkvæðaskáldið og sagnaritarinn; lögmálið hefur ekki breyst. Að lesa klassík er leið út úr mörgum ógöngum.

Ég hef verið svo heppinn að kynnast þeirri menningarstofnun sem einn íslenskur sveitabær er, og að auki tel ég mig hafa fengið innsýn inn í miðaldir á sveitabæ ömmu minnar og afa. Stundum nýti ég þennan eina «íslenska» heim sem ég þekki sem umgjörð fyrir mína texta, en sem rithöfundur er ég fyrst og fremst upptekin af tilvistarlegum spurningum. Mig dreymdi um að verða heimspekingur, en örlögin gerðu úr mér fílólóg. Draumurinn brýst út á öðrum vettvangi. Árin 1993–1994 ferðaðist ég víða um Afríku og Asíu. Þetta hafði mótandi áhrif á mig; og kveikti mikla forvitni um sögu og fortíð míns fólks.

Ég hef haft kenningu Osip Mandelstam að leiðarljósi í mínum skrifum; ætli maður að búa til bókmenntir þarf hvorki trú á Guð, manneskju eða hugmyndafræði hennar; en maður verður að trúa á orðið. Ef maður trúir ekki á orðið, er best að hætta að skrifa bókmenntir. Og reyndar má segja að trúin á orðið sé að vissu marki einnig trú á manneskjuna.

Bergsveinn Birgisson